Fyrst þarf að átta sig á því að þrátt fyrir nafngiftina er jákvæð sálfræði alls ekki einhver hamingjufræði þar sem erfiðum tilfinningum er hafnað.
Jákvæð sálfræði er vísindaleg nálgun á allar greinar sálfræði þar sem unnið er með hegðun, tilfinningar og hugsanir. Markmiðið eru að skilja, rannsaka, uppgötva og kynna þá þætti sem gera einstaklingum og samfélögum kleift að blómstra, þroskast á farsælan hátt og aðlagast ólíkum aðstæðum í lífinu, þrátt fyrir erfiðleika. Ásamt því að skoða hvað það er sem gerir lífið þess virði að lifa því.
Þessi nálgun á sér gamlar rætur, en það var ekki fyrr en um síðustu aldarmót að Martin Seligman, faðir jákvæðrar sálfræði, vakti athygli á ójafnvægi innan sálfræðinnar, þar sem mikil áhersla er lögð á geðræna sjúkdóma og minna á það að rannsaka það sem betur fer og því sýni hún ekki heildarmynd á upplifun mannsins. Eins og tekið var fram hér ofar, snýst jákvæð sálfræði ekki um að hafna neikvæðum tilfinningum, heldur snýst hún um það sem að gagnast manneskjunni vel og rannsóknir sýna einmitt að það er ekki gagnlegt að hafna neikvæðum tilfinningum. Heldur frekar að finna sátt við þær og finna uppbyggilegar leiðir til að takast á við þær.
Tilgangurinn með þessari nálgun er að ná betri heildarsýn og hallalausan vísindalegan skilning á mannlegri upplifun – hæðir, lægðir og allt þar á milli. Þó ekki í forvarnarskyni, heldur vegna þeirrar staðreyndar að þessir jákvæðu þættir eru eftirsóknarverðir í sjálfu sér.
Mikilvægt er einnig að hafa í huga að jákvæð sálfræði byggir ekki á huglægu mati einnar manneskju heldur á vísindalegum rannsóknum.
Viðfangsefni jákvæðrar sálfræði eru m.a. styrkleikar, gildi, jákvæðni, hamingja, vellíðan, þrautseigja, þakklæti, hugarfar, bjartsýni, von og velgengni.
Hvað eru jákvæð inngrip?
Svokölluð jákvæði inngrip geta verið áhrifarík í því að auka og viðhalda hamingju og öðrum jákvæðum tilfinningum ásamt því að minnka þunglyndi og kvíða. En það eru aðferðir eða æfingar sem miða að því að rækta með einstaklingnum jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir.